Sunnlensk ungmenni áttu sviðið í Skjálftanum sem fór fram í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn laugardagskvöldið 11. nóvember. Skjálftinn er byggður á Skrekk, hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum Reykjavíkurborgar, og fór hann nú fram í þriðja sinn, en í fyrsta sinn með áhorfendum þar sem fyrstu tvær keppnirnar voru undir áhrifum heimsfaraldurs.
Atriðin komu frá sjö sunnlenskum skólum sem tóku þátt þetta árið og má með sanni segja að atriðin hafi hreyft við þeim 500 áhorfendum sem voru á staðnum enda boðskapurinn oftar en ekki djúpur og með alvarlegum undirtón. Í Skjálftanum, líkt og Skrekk, er lögð mikil áhersla á að ungmennin sjálf þrói atriðin, allt frá hugmynd að lokaútkomu á sviði og því endurspegla atriðin hugðarefni þeirra og má segja að keppnirnar séu farvegur fyrir raddir ungs fólk á hverjum tíma. Ásamt því að móta listrænu hlið atriðanna þurfa þau líka að hugsa um tæknilegar útfærslur, hljóð, ljós, búninga, förðun og fleira og leggja mikinn tíma og vinnu í þetta skapandi ferli sem reynir á þrautseigju, skapandi hugsun og samvinnu.
Dómnefnd skipuðu leikararnir og tónlistarfólkið Júlí Heiðar, Þórdís Björk og dansarinn Ástrós Guðjónsdóttir. Þau fengu það erfiða verkefni að velja á milli atriðanna sem voru öll virkilega metnaðarfull og vel útfærð. Niðurstaðan var að Grunnskólinn í Þorlákshöfn hreppti 3. sætið, Vallaskóli á Selfossi 2. sætið og Grunnskólinn í Hveragerði sigraði Skjálftann 2023.
Siguratriði Hvergerðinga hét Sound of silence og fjallaði um þær alvarlegu afleiðingar sem einelti getur leitt af sér á listrænan hátt og lögðu þau áherslu á mikilvægi þess að eiga heilbrigð og góð samskipti. Það sé ekki nóg að heyra, það þarf líka að hlusta og það sé ekki nóg að tala því við þurfum líka að vita hvað við erum að segja vegna þess að orð hafa áhrif.
Vallaskóli flutti áhrifamikið atriði sem hét Eitt skref áfram og fjallaði um kvenréttindabaráttu þar sem sögulegt samhengi var fléttað við upplifanir kvenkyns nemenda sem eru í Vallaskóla árið 2023.
Atriði Grunnskólans í Þorlákshöfn fjallaði um líf stúlku og samskipti hennar við foreldra, kærasta og vini. Tengslin voru sett fram sem strengir sem brotnuðu einn og einn sem varð til þess að á endanum brotnar stúlkan endanlega saman.
Athygli vakti að Bláskógaskóli á Laugarvatni kom í bolum merktum Skjálftanum og það sem meira er þá skáru þau sjálf út mót, máluðu og prentuðu á bolina. Virkilega metnaðarfullt og flott hjá þeim.
Kynnarnir Sirrý Fjóla og Matti sáu um að halda stemningunni í hæstu hæðum og stóstjarnan Patrik, eða Prettyboitjokkó flutti Skína sem var valið Skjálftalagið 2023, ásamt því að syngja nokkur af vinsælustu lögum landans við mikinn fögnuð viðstaddra.
Skjálftinn var haldinn með stuðningi frá Uppbyggingarsjóði SASS og Sveitarfélaginu Ölfusi.
Hér fyrir neðan má sjá hópmyndir af öllum liðunum sem tóku þátt í Skjálftanum 2023. Fleiri myndir verða settar inn á næstu dögum á Facebook og Instagram síðum Skjálftans. Allar ljósmyndir tók Sunna Ben.
Comments