Vilt þú búa til hæfileikakeppni í anda Skrekks og Skjálfta?
Handbók um hæfileikakeppni grunnskólanema
Ása Berglind Hjálmarsdóttir
Framkvæmdastjóri Skjálftans
Búum til jöfn tækifæri fyrir ungmenni óháð búsetu
Það er umfangsmikið verkefni að halda viðburð eins og þennan, sér í lagi þegar verið er að innleiða hann í nýtt umhverfi og allir eru að gera allt í fyrsta sinn. Mér þótti því kjörið tækifæri að taka saman ferlið við innleiðingu Skjálftans ásamt ýmsum upplýsingum frá verkefnastjóra Skrekks og búa til handbók sem getur gagnast þeim sem vilja innleiða hæfileikakeppni í anda Skrekk í sínu umhverfi.
Handbókin er mastersverkefnið mitt í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst og það er með ríkri von í brjósti sem ég sendi öllum þeim sem vilja handbókina. Það geri ég með það fyrir augum að auðvelda skref þeirra sem eru áhugasamir um að innleiða hæfileikakeppni í anda Skrekks annars staðar á landinu. Með því vonast ég til að fleiri ungmenni fái þetta valdeflandi tækifæri, að upplifa einstakt, þroskandi og skemmtilega sköpunarferli.
Ég hvet ykkur til að hafa samband ef þið viljið fá eintak af handbókinni endurgjaldslaust á asaberglind@gmail.com
Skrekkur hefur jákvæð áhrif á þátttakendur og skólasamféagið
Samkvæmt eigindlegri rannsókn Jónu Guðrúnar Jónsdóttur sem kom úr árið 2020
Jóna Guðrún Jónsdóttir vann eigindlega rannsókn á áhrifum Skrekks þar sem markmið rannsóknarinnar var að stuðla að aukinni þekkingu á listkennslu og skoða hvaða áhrif þáttaka í verkefni eins og Skrekk hefur á líðan og sjálfsmynd ungmenna. Jafnframt var markmiðið að skoða áhrif Skrekks á skólabrag og skólamenningu. Í rannsókninni var bæði rætt við þátttakendur, kennara og skólastjórnendur.
Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að þátttaka í Skrekk hafði jákvæð áhrif á líðan og sjálfsmynd ungmenna, sér í lagi þegar þau fengu tækifæri til að vinna út frá eigin reynslu í námi og lýðræðislegum gildum. Einnig leiddi rannsóknin í ljós að þátttaka í Skrekk hefur góð áhrif á skólasamfélagið þar sem mikil liðsheild skapaðist í kringum keppnina. Þá greindu nemendur einnig frá tilfinningalegri samstöðu sem gerði það að verkum að þeir voru óhræddari við að opna á tilfinningar sínar og prófa sig áfram án þess að vera dæmdir fyrir það.
Á vefsíðunni má sjá myndir með tilvitnunum í ummæli sem komu fram í rannsókninni, bæði ummæli þátttakenda, kennara, stjórnanda ásamt nokkrum af þeim fjölmörgu jákvæðu niðurstöðum sem rannsóknin leiddi í ljós. Myndirnar eru allar fengnar af instagram síðu Skrekks með leyfi aðstandenda keppninnar.